Ferill 376. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


122. löggjafarþing 1997–1998.
Nr. 13/122.

Þingskjal 1452  —  376. mál.


Þingsályktun

um framkvæmdaáætlun til fjögurra ára um aðgerðir til að ná fram jafnrétti kynjanna.


    Alþingi ályktar skv. 17. gr. laga nr. 28/1991, um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, að samþykkja eftirfarandi framkvæmdaáætlun ríkisstjórnarinnar, fyrir tímabilið frá upphafi árs 1998 til loka árs 2001, um aðgerðir til að ná fram jafnrétti kynjanna.

FRAMKVÆMDAÁÆTLUN
I. INNGANGUR

Markmið ríkisstjórnarinnar í jafnréttismálum.

    Leiðarljós framkvæmdaáætlunarinnar er að sjónarmið jafnréttis verði fléttað inn í alla þætti stefnumótunar, ákvarðana og aðgerða á vegum ríkisins.
    Það er stefna ríkisstjórnarinnar að konur og karlar skuli njóta jafnra tækifæra og hafa sömu möguleika til áhrifa í samfélaginu. Á þeirri hugsun byggist mannréttindakafli stjórnarskrárinnar og lög nr. 28/1991, um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla. Með þeirri breytingu, sem gerð var á stjórnarskrá íslenska lýðveldisins árið 1995, var þetta viðhorf enn styrkt. Þá var lögfest ákvæði um að allir skuli vera jafnir fyrir lögunum og njóta mannréttinda án tillits til kynferðis, trúarbragða, skoðana, þjóðernisuppruna, kynþáttar, litarháttar, efnahags, ætternis og stöðu að öðru leyti. Sérstaklega er tekið fram að konur og karlar skuli njóta jafns réttar í hvívetna.
    Formlegt eða lagalegt jafnrétti kynjanna nægir ekki ef það skilar sér ekki til raunverulegs jafnréttis í lífi og starfi beggja kynja. Í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar segir að eitt af meginmarkmiðum hennar sé: „Að vinna gegn launamisrétti af völdum kynferðis. Stuðlað verði að jöfnum möguleikum kvenna og karla til að njóta eigin atorku og þroska hæfileika sína.“
    Í framkvæmdaáætlun ríkisstjórnarinnar fyrir tímabilið 1998 til loka árs 2001 um aðgerðir til að koma á jafnrétti kvenna og karla er lögð áhersla á að jafnrétti kynjanna er mannréttindamál. Íslenskum stjórnvöldum ber, á grundvelli laga, sem og vegna alþjóðlegra sáttmála sem þau hafa staðfest, að sýna fordæmi og eiga frumkvæði að aðgerðum til að auka jafnrétti kynjanna. Jafn réttur og jöfn staða kynjanna verða þó ekki tryggð með stjórnvaldsaðgerðum einum saman. Nauðsynlegt er að margir leggist hér á eitt, félagasamtök, fjölmiðlar og vinnuveitendur sem verkalýðsfélög.
    Framkvæmdaáætlunin er þannig úr garði gerð að sérhver ráðherra hefur sett sér að unnið verði að tilteknum verkefnum á málasviði síns ráðuneytis. Þá hefur ríkisstjórnin ákveðið að vinna í sameiningu að nokkrum verkefnum.

Samvinna karla og kvenna er nauðsynleg forsenda árangurs.


    Ríkisstjórnin leggur áherslu á að jafnréttismál varða bæði konur og karla og að samvinna beggja kynja er nauðsynleg forsenda þess að árangur náist. Til skamms tíma heyrði það til undantekninga að karlar létu sig varða jafnréttismál. Jafnréttismál voru talin málefni kvenna og alfarið á þeirra ábyrgð. Reynslan hefur sýnt að jafnréttismál varða bæði konur og karla og jafnframt að samvinna þeirra er forsenda þess að árangur náist. Jafnframt er ljóst að gömul og hefðbundin viðhorf er varða verkaskiptingu kvenna og karla, sérstaklega hvað snertir ábyrgð og virka þátttöku á heimilum og í umönnun barna, geta staðið í vegi raunverulegs jafnréttis.

Öll stefnumótun taki mið af jafnrétti kynja.


    Ríkisstjórnin mun vinna að því að jafnréttissjónarmið verði samþætt opinberri stefnumótun og ákvarðanatöku. Samþætting krefst þess að jafnrétti kynjanna sé meðvitað haft í huga við alla áætlanagerð. Allir sem koma að stefnumótun og ákvarðanatöku þurfa því að hafa þekkingu á jafnréttismálum.

II. VERKEFNI RÍKISSTJÓRNARINNAR


1.     Öll tölfræði kyngreind.

    Ráðuneytum og ríkisstofnunum verður sent umburðarbréf þar sem kynnt verður sú ákvörðun ríkisstjórnarinnar að í öllum tölfræðilegum samantektum og skýrslum verði upplýsingar greindar eftir kyni. Hagstofa Íslands mun vinna með stofnunum ríkisins að framkvæmd þessa verkefnis. Skrifstofa jafnréttismála mun kanna framgang þess þegar liðin eru tvö ár frá gildistöku áætlunarinnar.

2.     Kannað verður hvort opinber stefnumótun taki mið af jafnrétti kynja.
    Ríkisstjórnin mun skipa nefnd sem verður falið að kanna hvort og með hvaða hætti opinber stefnumótun taki mið af jafnrétti kynjanna. Nefndin mun í upphafi verks leggja fyrir ríkisstjórn starfsramma og gera þar tillögur að þeim málaflokkum sem sérstaklega verða skoðaðir. Nefndin mun taka til starfa eigi síðar en 1. maí 1998 og verður starf hennar metið og endurskoðað ef þörf þykir að ári liðnu.

3.     Jafnrétti hjá ríkisstofnunum.
    Í árangursstjórnunarsamningum milli ráðuneyta og stofnana verði sérstaklega vikið að 6. gr. laga um réttindi og skyldur ríkisstarfsmanna sem m.a. tekur til jafnréttismála. Þá verði í erindisbréfum forstöðumanna stofnana sérstaklega minnt á að stuðlað skuli að jafnrétti kynjanna í starfsemi stofnunarinnar.

4.     Konur og efnahagsmál — konur og efnahagsleg völd.
    Skipuð verður nefnd sem mun leggja fyrir ríkisstjórn tillögu að rannsóknarverkefni um efnahagsleg völd kvenna og karla og hvar þau liggja í íslensku samfélagi.

III. VERKEFNI EINSTAKRA RÁDUNEYTA


1.     Forsætisráðuneyti.
    Forsætisráðuneytið ber ábyrgð á framkvæmd verkefna ríkisstjórnarinnar, sbr. kaflann hér að framan, en auk þeirra mun ráðuneytið sinna fimm sértækum verkefnum.

1.1.     Endurskoðun á kjördæmaskipan og kosningareglum.
    Nefnd forsætisráðherra um endurskoðun kjördæmaskipunar og kosningalaga mun í skýrslu sinni leggja fram sérstaka úttekt á áhrifum mismunandi kosningakerfa, þar á meðal á möguleika kvenna og karla til að hljóta kosningu til Alþingis og sveitarstjórna. Í þessu skyni mun nefndin afla upplýsinga erlendis frá um rannsóknir og skýrslur á þessu sviði en gerist þess þörf verður unnin sérstök athugun fyrir ráðuneytið.

1.2.     Þróun upplýsingasamfélagsins.
    Ríkisstjórnin hefur þegar samþykkt stefnumótun um málefni upplýsingasamfélagsins og skipað verkefnisstjórn með fulltrúum fimm ráðuneyta. Forsætisráðuneytið mun fela verkefnisstjórninni að kanna hvernig aðrar þjóðir og alþjóðasamtök fylgjast með og reyna að hafa áhrif á þróun upplýsingasamfélagsins með tilliti til mismunandi stöðu kvenna og karla. Jafnframt verði staða þessara mála hér á landi könnuð. Gagnasöfnun verði lokið fyrir árið 2000 og á grundvelli hennar verða teknar ákvarðanir um hugsanlegar aðgerðir.

1.3.     Staða kvenna á landsbyggðinni.
    Ráðuneytið mun kanna sérstaklega hvaða áhrif atvinnu- og þjóðfélagsbreytingar á undanförnum árum hafi haft á stöðu kvenna á landsbyggðinni og þar með á möguleika þeirra til náms og atvinnu. Könnuninni ljúki fyrir árslok 1998. Á grundvelli niðurstaðna verði lagðar fram tillögur til úrbóta sem miði að því að styrkja sérstaklega stöðu kvenna á landsbyggðinni.

1.4.     Átak til að auka hlut kvenna í nefndum og ráðum á vegum ráðuneytisins.
    Þegar skipað er í ráð og nefndir á vegum ráðuneytisins skal taka mið af jafnréttissjónarmiðum og kalla til fólk af báðum kynjum eftir því sem kostur er.

1.5.     Jafnréttisnefnd ráðuneytisins og stofnana þess.
    Kanna skal stöðu jafnréttismála í ráðuneytinu og stofnunum þess og gera áætlun um hvernig rétta skuli hlut kynjanna. Verði það m.a. gert með markvissri fræðslu yfirmanna og annarra starfsmanna.

2.     Dóms- og kirkjumálaráðuneyti.
2.1.     Hvatning til kvenna sem og karla að sækja um störf.
    Ráðuneytið hefur sett sér að fylgja þeirri stefnu að orða starfsauglýsingar þannig að fram komi hvatning um að konur jafnt sem karlar sæki um viðkomandi störf.

2.2.     Hlutur kvenna í nefndum og ráðum á vegum ráðuneytisins.
    Stefnt verður að því að auka enn hlut kvenna í nefndum og ráðum á vegum ráðuneytisins og óskað eftir að tilnefningum verði hagað svo að því markmiði verði náð.

2.3.     Fjölgun kvenna í lögreglu og meðal fangavarða.
    Markvisst verður stefnt að því að ráða fleiri konur í störf lögreglumanna og fangavarða. Í því skyni verða konur hvattar til að sækja um störf sem auglýst eru, sbr. 5. gr. og 3. mgr. 7. gr. jafnréttislaga.

2.4.     Staða kvenna innan lögreglunnar.
    Lögreglan er fjölmennust þeirra starfsstétta sem heyra undir ráðuneyti dómsmála. Með nýrri skipan á vali nemenda í lögregluskólanum hefur konum þegar fjölgað í hópi nemenda og mun það að öllum líkindum verða til þess að auka hlut kvenna í lögreglunni þegar fram í sækir. Jafnframt því að stuðla að fjölgun kvenna innan lögreglunnar mun dómsmálaráðuneytið huga sérstaklega að stöðu þeirra kvenna sem starfa í lögreglunni.

2.5.     Meðferð heimilisofbeldismála.
    Nefnd, sem dómsmálaráðherra skipaði til að kanna orsakir, umfang og afleiðingar heimilisofbeldis, svo og annars ofbeldis gegn konum og börnum, skilaði nýverið skýrslu um niðurstöður sínar. Í ljósi niðurstaðna nefndarinnar hefur dómsmálaráðherra skipað þrjár nefndir til að huga að meðferð þessara mála.
    Einni nefndinni er ætlað að huga að nauðsynlegum breytingum á löggjöf til að sporna við heimilisofbeldi, huga að því með hvaða hætti unnt sé að efla starf félagasamtaka sem sinna forvarnamálum og hjálparúrræðum á þessu sviði og gera tillögur um forvarnaaðgerðir og hjálparúrræði fyrir brotaþola og gerendur.
    Hinum nefndunum tveimur er falið að huga að meðferð þeirra mála sem hér um ræðir, annars vegar á rannsóknarstigi en hins vegar í dómskerfinu, og leggja fyrir dómsmálaráðherra tillögur um nauðsynlegar úrbætur í því efni, þar á meðal um breytingar á refsi- og réttarfarslöggjöf, ef því er að skipta.

2.6.     Staða þolenda afbrota.
    Nefnd, sem dómsmálaráðherra skipaði til að athuga hvort taka ætti upp það fyrirkomulag að ríkissjóður ábyrgðist greiðslur dæmdra bóta vegna kynferðisbrota eða annarra grófra ofbeldisbrota, samdi frumvarp sem varð að lögum um greiðslu ríkissjóðs á bótum til þolenda afbrota. Nefndinni var einnig falið að athuga hvort setja ætti í lög reglur um nálgunarbann og hvort þolendur gætu átt betri aðgang að rannsóknarferlinu. Meðal þeirra úrræða sem nefndin hefur fjallað um er réttur brotaþola til lögmannsaðstoðar þeim að kostnaðarlausu. Nefndin vinnur nú að tillögum um breytingar á refsi- og réttarfarslöggjöf er miða að bættri stöðu brotaþola að þessu leyti.

2.7.     Staða kvenna innan þjóðkirkjunnar.
    Dóms- og kirkjumálaráðherra mun beina þeim tilmælum til biskupsstofu að sérstaklega verði hugað að stöðu kvenna innan þjóðkirkjunnar. Stefnt verði að því að aukin verði þátttaka kvenna í ráðum og nefndum á vegum þjóðkirkjunnar og að jafnað verði hlutfall karla og kvenna í trúnaðarstörfum innan hennar.
    Í því skyni verði tekið mið af niðurstöðum nefndar sem biskup hefur skipað til að skoða jafnréttismál í þjóðkirkjunni. Nefndinni er í fyrsta lagi ætlað að gera sér grein fyrir stöðu mála hvað varðar jafnrétti kynja í kirkjunni, í öðru lagi að kynna sér stöðu þessara eða svipaðra mála meðal nágrannakirkna á Norðurlöndum og í Alkirkjuráðinu og Lúterska heimssambandinu og kynna stefnu þessara fjölþjóðasamtaka sem íslenska kirkjan tilheyrir og í þriðja lagi að gera tillögur um úrbætur sjái nefndin möguleika á því að koma slíku fram.

2.8.     Forsjár- og umgengnismál.
    Dómsmálaráðherra hefur skipað nefnd til að kanna stöðu forsjár- og umgengnismála. Nefndinni hefur m.a. verið falið að kanna reynslu þá er fengist hefur af sameiginlegri forsjá hér á landi og annars staðar á Norðurlöndum, hvaða úrræði eru líkleg til að draga úr fjölda brota vegna umgengnisréttar og -skyldu, hvaða upplýsingar og fræðsla standa foreldrum til boða í tengslum við skilnaðar-, forsjár- og umgengnismál, hvernig auka megi þá fræðslu ef þess er talin þörf og hverjar eru raunverulega samvistir barna við það foreldri sem þau búa ekki hjá.

2.9.     Jafnrétti — mannréttindi.
    Á vegum dómsmálaráðuneytis verði skipulögð námskeið fyrir opinbera embættismenn um mannréttindamál, m.a. um mannréttindi kvenna sérstaklega.

2.10.     Jafnréttisnefnd ráðuneytisins og stofnana þess.
    Kanna skal stöðu jafnréttismála í ráðuneytinu og stofnunum þess og gera áætlun um hvernig rétta skuli hlut kynjanna. Verði það m.a. gert með markvissri fræðslu yfirmanna og annarra starfsmanna.

3.     Félagsmálaráðuneyti.
3.1.     Jafnréttisumsögn.
    Félagsmálaráðherra mun á gildistíma framkvæmdaáætlunarinnar sjá til þess að komið verði á reglubundnu mati á stjórnarfrumvörpum með tilliti til jafnréttis kynjanna. Jafnréttisumsögn verði gerð og látin fylgja stjórnarfrumvörpum við framlagningu þeirra á Alþingi.

3.2.     Fræðsla um jafnréttismál.
    Skipulögð verða námskeið fyrir yfirmenn ráðuneyta og ríkisstofnana og aðra stjórnendur um markmið og leiðir í jafnréttisstarfinu, þeirra hlutverk ásamt kynningu á framkvæmdaáætluninni. Námskeiðin verði haldin á fyrri hluta ársins 1998. Námskeiðin verði haldin með svipuðum hætti og nýafstaðin námskeið um stjórnsýslu- og upplýsingalög.

3.3.     Aukin virkni kvenna í stjórnmálum.
    Skipuð verður nefnd sem falið verður að kanna hvernig megi auka virkni kvenna og þátttöku þeirra í almennu stjórnmálastarfi.

3.4.     Tilraunaverkefni um starfsmat.
    Félagsmálaráðuneytið hefur í samvinnu við starfshóp um starfsmat unnið að tilraunaverkefni um starfsmat. Tilgangurinn er að nota kynhlutlaust starfsmatskerfi til að raða störfum innbyrðis á hverjum vinnustað með það að markmiði að skoða hvort mat á störfum mismuni eftir kynferði. Niðurstaðna úr tilraunaverkefninu er að vænta vorið 1998. Félagsmálaráðuneytið mun standa að kynningu á niðurstöðum verkefnisins og kynna sérstaklega þá starfsmatsaðferð sem þar hefur verið þróuð, m.a. með útgáfu kynningarbæklings.

3.5.     Fræðsla fyrir trúnaðarmenn.
    Gefin verður út handbók fyrir trúnaðarmenn á vinnustöðum og henni fylgt eftir með fræðslu. Í handbókinni verða í aðgengilegu formi allar upplýsingar er varða þætti sem geta haft áhrif á mismunandi stöðu kvenna og karla á vinnustaðnum. Sérstök áhersla verður lögð á að upplýsa og fræða um þau atriði eða þær aðstæður sem geta haft áhrif á laun og launamyndun og hvaða leiðir starfsmönnum, trúnaðarmönnum og stéttarfélögum eru færar til að hafa áhrif þar á.

3.6.     Konur í hlutastörfum.
    Á gildistíma áætlunarinnar verður unnin könnun á vægi hlutastarfa og starfa sem unnin eru án fastráðningar eða eru unnin utan hefðbundinna vinnustaða hjá konum annars vegar og hins vegar hjá körlum. Upplýsingarnar verða flokkaðar eftir atvinnugreinum og starfsgreinum. Athugað verður hvort framkvæmd könnunarinnar geti verið samvinnuverkefni Vinnumálastofnunar og Hagstofu Íslands.

3.7.     Skipting fjár úr sjóðum vegna atvinnuuppbyggingar á landsbyggðinni.
    Félagsmálaráðuneytið, í samvinnu við forsætisráðuneyti (Byggðastofnun), fjármálaráðuneyti og viðskipta- og iðnaðarráðuneyti, mun kanna hvernig styrkir til einstaklinga úr opinberum sjóðum sem eru eyrnamerktir atvinnuuppbyggingu á landsbyggðinni hafa skipst á milli kvenna og karla.

3.8.     Lánatryggingasjóður kvenna.
    Sjóðurinn er verkefni sem unnið er að og er samvinnuverkefni félagsmálaráðuneytis, iðnaðar- og viðskiptaráðuneytis og Reykjavíkurborgar. Markmið sjóðsins og áherslur hans ásamt því hvernig hann hefur nýst konum verði könnuð reglulega.

3.9.     Konur og atvinnuleysi.
    Á árunum 1998 og 1999 verður unnin skýrsla, byggð á þeim upplýsingum sem til eru eða sem niðurstaða könnunar ef upplýsingar skortir, um aðstæður „atvinnulausra kvenna“. Í kjölfar þessa verða lagðar fram tillögur að aðgerðum eða átaki til að bæta aðstæður þeirra og möguleika til að fá vinnu. Verkefnislýsing verður unnin í samvinnu við Vinnumálastofnun.

3.10.     Konur og atvinnuleit.
    Samkvæmt nýsamþykktum lögum um vinnumiðlun er áhersla lögð á virka vinnumiðlun, m.a. með ákvæðum um vinnuleitaráætlanir. Vinnumálastofnun verður falið að þróa aðferðir sem sérstaklega henta atvinnulausum konum við að fá vinnu. Kanna skal hvort ástæða sé til að koma á fót sérstökum stuðningsúrræðum fyrir konur sem hafa fengið vinnu eftir langvarandi atvinnuleysi.

3.11.     Ný stétt vinnukvenna (aðfluttar konur).
    Félagsmálaráðuneytið mun í samvinnu við Starfsmannafélagið Sókn kanna aðstöðu, réttindi og skyldur aðfluttra kvenna sem koma hingað til lands til að vinna inni á einkaheimilum. Niðurstöður könnunarinnar verða nýttar til að gera tillögur til úrbóta þar sem er talin þörf.

3.12.     Tengsl atvinnulífs og fjölskyldulífs.
    Unnin verður rannsókn á viðhorfum og væntingum karla og kvenna til atvinnulífsins og samspils þess við fjölskyldulífið. Sérstaklega verður hugað að möguleikum og takmörkunum hvors kyns til að sameina þessa þætti. Sérstakur hluti rannsóknarinnar mun beinast að atvinnurekendum og viðhorfum þeirra, þar með talið hvort mismikið tillit sé tekið til þarfa karla og kvenna til að sinna fjölskyldum sínum.

3.13.     Starfsmenntun í atvinnulífinu.
    Félagsmálaráðuneyti mun beita sér fyrir því að þeim aðilum er fara með starfsmenntunarmál í hefðbundnum umönnunarstörfum kvenna verði gert kleift að kanna sérstaklega hvaða áhrif breyttar og strangari kröfur til menntunar og til framhaldsmenntunar geta haft á möguleika kvenna á starfstengdri menntun á þessum sviðum.

3.14.     Konur sem flóttamenn.
    Kannað verður hvort við mat á skilgreiningum á rétti flóttamanna til að sækja um dvalarleyfi hér á landi sé nægjanlega tryggt að ofsóknir og ofbeldi, sem konur sæta vegna kynferðis síns og beitt er markvisst til að neyða fólk af tilteknu þjóðerni, menningu eða trúarbrögðum til að flýja heimili sín, sé metið sem fullgild forsenda leyfisveitingar.

3.15.     Aðgerðir gegn kynferðislegri áreitni.
    Félagsmálaráðuneytið mun beita sér fyrir því að unnin verði áætlun eða lagt fram frumvarp til laga sem hafi það að markmiði að útrýma kynferðislegri áreitni á vinnustöðum og í skólum.

3.16.     Jafnréttisráðgjafi.
    Þegar tilraunaverkefninu um starf jafnréttisráðgjafa lýkur verður unnið mat á árangri verkefnisins og í framhaldi af því lagðar fram tillögur um framhald.

3.17.     Könnun á meðferðarúrræðum fyrir fíkniefnaneytendur.
    Skrifstofu jafnréttismála verður falið að kanna hvort meðferðarúrræði fyrir fíkniefnaneytendur, sem eru kostuð af opinberu fé, henti jafnt konum sem körlum.

3.18. Könnun á skilyrðum fjölskyldna.
    Félagsmálaráðuneytið mun standa fyrir könnun á áhrifum aðgerða opinberra aðila til styrktar fjölskyldunni. Sérstaklega verði skoðað hvort og þá hvernig skilyrði fjölskyldunnar í samfélaginu hafi batnað vegna slíkra aðgerða.

3.19.     Meðferð fyrir karla sem beita konur ofbeldi.
    Félagsmálaráðuneytið mun í samvinnu við heilbrigðisráðuneytið og karlanefnd jafnréttisráðs beita sér fyrir því að boðið verði upp á meðferð fyrir karla sem beita konur ofbeldi.

3.20.     Nefndir og ráð.
    Þegar skipað er í ráð og nefndir á vegum félagsmálaráðuneytisins mun áfram verða tekið mið af jafnréttissjónarmiðum og kallað til fólk af báðum kynjum eftir því sem kostur er.

3.21.     Jafnréttisnefnd ráðuneytisins og stofnana þess.
    Kanna skal stöðu jafnréttismála í ráðuneytinu og stofnunum þess og gera áætlun um hvernig rétta skuli hlut kynjanna. Verði það m.a. gert með markvissri fræðslu yfirmanna og annarra starfsmanna.

4.     Fjármálaráðuneyti.
4.1.     Feðraorlof.
    Hinn 1. janúar 1998 tóku gildi reglur fjármálaráðherra um sjálfstætt fæðingarorlof feðra í þjónustu ríkisins. Í reglunum er feðrum í þjónustu ríkisins tryggður réttur til launa í tvær vikur vegna fæðingar barns. Í byrjun árs 1999 verður reynslan af þessari nýbreytni skoðuð með viðtölum og spurningum til þeirra sem þessa orlofs nutu.

4.2. Úttekt á áhrifum nýs launakerfis á launamun karla og kvenna.
    Með meiri hluta kjarasamninga, sem fjármálaráðherra fyrir hönd ríkissjóðs gerði við stéttarfélög innan BSRB og BHM og gilda eiga til ársins 2000, fylgdi yfirlýsing þar sem áréttuð er stefna ríkisins að jafna þann launamun karla og kvenna sem ekki er hægt að útskýra nema á grundvelli kyns og bent á að með nýju launakerfi gefist tækifæri til þess. Til þess að meta áhrif nýs launakerfis á launamun karla og kvenna skuldbatt fjármálaráðuneytið sig til þess að gera sérstaka úttekt á þeim áhrifum á samningstímabilinu. Stefnt er að gerð slíkrar úttektar á árinu 1999.

4.3. Reglur um starfslýsingar.
    Í bæklingi fjármálaráðherra um jafnréttismál frá febrúar 1996 er hvatning til vinnuveitenda um að „starfslýsingar séu skilmerkilegar og frammistöðumat sé lagt til grundvallar starfsframa“. Einnig segir í 2. mgr. 8. gr. laga nr. 70/1996, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, að setja skuli starfsmanni erindisbréf ef hann óskar þess. Með tilliti til þess og nýrra kjarasamninga mun fjármálaráðuneytið minna á þetta ákvæði þar sem því verður við komið.

4.4. Fræðsla til yfirmanna stofnana ráðuneytisins.
    Fjármálaráðuneytið mun skipuleggja fræðslu um jafnréttismál fyrir yfirmenn stofnana þess í anda þeirra hugmynda sem komu fram í jafnréttisriti ráðuneytisins frá febrúar 1996 og í samræmi við niðurstöðu jafnréttiskönnunar sem gerð var í janúar 1998 á vegum starfshóps fjármálaráðuneytisins um jafnréttismál.

4.5. Hlutur kvenna í starfi ráðuneytisins aukinn.
    Fjöldi kvenna í nefndum á vegum fjármálaráðuneytisins hefur aukist á undanförnum árum í samræmi við stefnu ráðherra þar að lútandi. Áfram verður unnið að fjölgun kvenna í nefndum og ráðum á vegum ráðuneytisins. Þá verður lögð áhersla á að gæta í hvívetna jafnræðis karla og kvenna í starfsmannahaldi ráðuneytisins og hugað sérstaklega að kynjaskiptingu við val á yfirmönnum.

4.6. Endurskoðun á eyðublöðum.
    Fjármálaráðuneytið mun sjá til þess að öll eyðublöð frá stofnunum sem heyra undir fjármálaráðuneytið og þar sem einstaklingar þurfa að gefa upplýsingar um tekjur og eignir verði endurskoðuð og metin út frá jafnréttissjónarmiðum.

4.7.     Jafnréttisnefnd ráðuneytisins og stofnana þess.
    Kanna skal stöðu jafnréttismála í ráðuneytinu og stofnunum þess og gera áætlun um hvernig rétta skuli hlut kynjanna. Verði það m.a. gert með markvissri fræðslu yfirmanna og annarra starfsmanna.

5. Hagstofa Íslands.
    Hagstofan gegnir mikilvægu hlutverki í samþættingu jafnréttissjónarmiða, ekki hvað síst að því er varðar kyngreindar hagtölur og afmarkaða gagnasöfnun.

5.1.     Öll tölfræði kyngreind.
    Samkvæmt verkefni II.1 verður ráðuneytum og ríkisstofnunum sent umburðarbréf þar sem kynnt verður sú ákvörðun ríkisstjórnarinnar að í öllum tölfræðilegum samantektum og skýrslum skuli upplýsingar greindar eftir kyni. Hagstofa Íslands mun vinna með stofnunum ríkisins að framkvæmd þessa verkefnis en skrifstofa jafnréttismála kanna framgang þess þegar liðin eru tvö ár frá gildistöku áætlunarinnar.

5.2.     Eignarréttur á fasteignum.
    Hagstofa Íslands mun vinna úttekt á hverjir eiga eða eru skráðir fyrir fasteignum hér á landi.

5.3.     Vinnutími — hluti af reglubundinni upplýsingasöfnun er varðar laun.
    Hagstofa Íslands og fjármálaráðuneytið munu endurskipuleggja alla gagnasöfnun á þeirra vegum sem varðar vinnuframlag og laun fólks þannig að raunverulegur vinnutími komi þar skýrt fram. Þessu verki verður lokið innan tveggja ára. Ríkisstjórnin mun jafnframt beita sér fyrir því við aðila vinnumarkaðarins að sambærileg endurskipulagning fari fram hjá þeim.

5.4.     Tölfræðihandbók um stöðu kvenna og karla.
    Hagstofa Íslands mun áfram gefa reglulega út tölfræðihandbók þar sem fram kemur yfirlit yfir stöðu kvenna og karla. Útgáfan sem er í handhægu og aðgengilegu formi hentar vel almenningi. Upplýsingarnar verða bæði á íslensku og ensku og stefnt að útgáfu þriðja hvert ár.

5.5.     Jafnréttisnefnd ráðuneytisins og stofnana þess.
    Kanna skal stöðu jafnréttismála í ráðuneytinu og stofnunum þess og gera áætlun um hvernig rétta skuli hlut kynjanna. Verði það m.a. gert með markvissri fræðslu yfirmanna og annarra starfsmanna.

6.     Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneyti.
6.1.     Reglur um rannsóknir á lyfjum.
    Tryggt skuli að farið sé eftir þeim reglum sem gilda á Evrópska efnahagssvæðinu um rannsóknir á lyfjum (GCP) þannig að fullt tillit sé tekið til áhrifa þeirra á konur og karla.

6.2.     Nefnd um framtíðarstefnu í heilbrigðismálum.
    Heilbrigðisráðherra beini því til nefndar um framtíðarstefnu í heilbrigðismálum að í skýrslu hennar komi fram tillögur um framtíðarstefnumótun í heilbrigðismálum sem taki mið af ólíkum þörfum og mismunandi aðstæðum kynjanna.

6.3.     Fæðingarorlof.
    Heilbrigðisráðherra hefur lagt fram á Alþingi frumvarp til laga um fæðingarorlof þar sem báðum foreldrum verður tryggður réttur til fæðingarorlofs. Unnið verði að því að jafna þann mun sem er á rétti vinnandi fólks eftir því hvar það starfar.

6.4.     Meðferð fyrir karla sem beita konur ofbeldi.
    Heilbrigðisráðuneytið lítur á ofbeldi gegn konum sem heilbrigðisvandamál og mun í samvinnu við félagsmálaráðuneytið beita sér fyrir því að boðið verði upp á slíka meðferð hér á landi.

6.5.     Feðrafræðsla fyrir verðandi feður.
    Unnið verður að því að koma á sérstakri feðrafræðslu sem hluta af þeim undirbúningi sem verðandi foreldrum er boðið upp á. Jafnframt verður gert átak til að tryggja að starfsfólk heilbrigðisstofnana sé meðvitað um mikilvægi þess að feður séu virkir þátttakendur við meðgöngu, fæðingu og umönnun barna sinna.

6.6.     Endurskoðun á staðaltölum almannatrygginga.
    Staðaltölur almannatrygginga eru sundurgreindar eftir kynjum þar sem það er tæknilega framkvæmanlegt. Unnið verði að því að sundurgreining nái til allra upplýsinga.

6.7.     Úttekt á reglum sem varða mat á vistunarþörf.
    Þær reglur sem stuðst er við þegar verið er að meta vistunarþörf ellilífeyrisþega eða öryrkja verða kannaðar með tilliti til þess hvort þær koma mismunandi út hjá konum og körlum.

6.8.     Útreikningar örorkumatsbóta með tilliti til jafnréttis kvenna og karla.
    Kannað verði hvort hefðbundið mat á störfum kvenna og karla sé lagt til grundvallar við útreikninga á bótum vegna örorku.

6.9.     Sérstök herferð í forvörnum gegn fíkniefna- og tóbaksneyslu.
    Í herferðum sem varða tóbaksvarnir verður unnið eftir þeim sjónarmiðum að forsendur reykinga hjá konum og stúlkum annars vegar og körlum og piltum hins vegar eru mismunandi. Gerð verði tilraun í þá veru að beina áróðri og fræðslu sérstaklega til ungra stúlkna.

6.10.     Áhættuhegðun karla.
    Karlar og drengir eru miklum mun fleiri en konur meðal þeirra sem slasast, svipta sig lífi og misnota vímuefni. Ljóst er að hér er um heilbrigðisvandamál að ræða og mikilvægt er að leita orsaka þess. Því mun ráðuneytið kanna sérstaklega þátt karlmennskuímyndar í þeirri hegðun karla sem orsakar slys, sjálfsvíg og eitranir.

6.11.     Átak til að auka hlut kvenna í nefndum og ráðum á vegum ráðuneytisins.
    Þegar skipað er í ráð og nefndir á vegum ráðuneytisins skal taka mið af jafnréttissjónarmiðum og kalla til fólk af báðum kynjum eftir því sem kostur er.

6.12.     Jafnréttisnefnd ráðuneytisins og stofnana þess.
    Kanna skal stöðu jafnréttismála í ráðuneytinu og stofnunum þess og gera áætlun um hvernig rétta skuli hlut kynjanna. Verði það m.a. gert með markvissri fræðslu yfirmanna og annarra starfsmanna.

7.     Iðnaðar- og viðskiptaráðuneyti.
7.1. Stuðningur við atvinnurekstur kvenna.
    Í janúar 1997 skipaði iðnaðar- og viðskiptaráðherra nefnd til að kanna hvort þörf sé á sérstökum stuðningi við atvinnurekstur kvenna. Nefndin hefur m.a. látið gera könnun á meðal kvenna í rekstri fyrirtækja hérlendis, svo og viðhorfum þeirra til sértækra stuðningsaðgerða við atvinnurekstur kvenna. Þá er í vinnslu yfirlit yfir helstu stuðningsaðgerðir sem í boði eru hérlendis og erlendis. Mun nefndin skila niðurstöðum og tillögum í byrjun næsta árs.

7.2. Könnun á stöðu kvenna í iðnaði.
    Samdráttur hefur orðið í einstökum atvinnugreinum iðnaðar undanfarin ár, en á sama tíma hafa aðrar eflst til muna. Iðnaðar- og viðskiptaráðuneyti mun kanna hvort þessar breytingar hafi nýst konum sem skyldi eða hvort samdrátturinn hafi frekar átt sér stað í atvinnugreinum þar sem konur eru í meiri hluta. Ef niðurstaða könnunarinnar er veik staða kvenna mun ráðuneytið fara yfir þá þætti og gera grein fyrir þeim.

7.3. Hlutur kvenna í nefndum og ráðum á vegum ráðuneytisins.
    Iðnaðar- og viðskiptaráðuneyti mun sérstaklega taka mið af jafnréttissjónarmiðum við tilnefningu í nefndir og ráð með það að markmiði að auka þar hlut kvenna.

7.4. Iðnaðar- og viðskiptaráðuneyti og upplýsingasamfélagið.
    Iðnaðar- og viðskiptaráðherra var falið af ríkisstjórninni 6. október 1995 að skipa nefnd til að vinna að stefnumótun fyrir ríkisstjórnina um íslenska upplýsingasamfélagið næsta áratug. Nefndin skilaði áliti sínu og níu starfshópa er með henni unnu ári síðar. Eitt af meginmarkmiðunum er að nýta möguleika upplýsingatækninnar til að vinna gegn óæskilegum félagslegum áhrifum, svo sem auknu misrétti, og sjá til þess að jafnrétti sé tryggt. Í þessu felst m.a. sá ásetningur að efla fjarmenntun og atvinnuþátttöku fólks með fjarvinnslu sem mun auka jafnrétti kynjanna óháð búsetu.

7.5. Fjölgun kvenna í stjórnun og rekstri fyrirtækja.
    Með því að auka veg kvenna í stjórnun og rekstri fyrirtækja stefnir iðnaðar- og viðskiptaráðuneytið að því að auka sjálfstæði kvenna og um leið jafnrétti kynjanna. Einnig munu kraftar kvenna til eflingar atvinnulífinu nýtast betur.

7.6. Stuðningur Nýsköpunarsjóðs við atvinnuuppbyggingu kvenna.
    Hinn 1. janúar 1998 tók Nýsköpunarsjóður atvinnulífsins til starfa. Hlutverk sjóðsins er að stuðla að uppbyggingu og vexti íslensks atvinnulífs. Mun sjóðurinn gegna hlutverki sínu með því að taka þátt í fjárfestingarverkefnum á sviði nýsköpunar, einkum með hlutafjárþátttöku en einnig með því að veita lán og ábyrgðir í þessu skyni. Einnig mun sjóðurinn styðja við þróunar- og kynningarverkefni.
    Þátttaka kvenna í sköpun nýrra atvinnutækifæra á sviði lítilla og meðalstórra fyrirtækja er sívaxandi sem er einnig reyndin í Bandaríkjunum, en á vegum SBA (Small Business Administration) hafa verkefni sem auka atvinnuþátttöku kvenna gefist vel.
    Nýsköpunarsjóði er m.a. ætlað að vera smáum og meðalstórum fyrirtækjum öflugur bakhjarl. Iðnaðar- og viðskiptaráðuneyti telur sérstaklega mikilvægt að auka veg kvenna í atvinnurekstri og telur að sjóðurinn muni með almennri starfsemi sinni styðja atvinnusköpun kvenna og öflun nýrra atvinnutækifæra.

7.7. Átak til atvinnusköpunar.
    Í mars 1996 gerðu iðnaðar- og viðskiptaráðuneyti, Iðnlánasjóður og Iðnþróunarsjóður með sér samstarfssamning um „Átak til atvinnusköpunar“. Markmið átaksins er m.a. stuðningur við lítil og meðalstór fyrirtæki, svo og einstaklinga á sviði atvinnu- og nýsköpunar. Þann tíma sem stjórn átaksins hefur starfað hafa margvísleg verkefni verið studd sem hafa ekki síður nýst konum en körlum. Má þar nefna átak til eflingar textíliðnaði, stuðning við framleiðslu sjávar- og jurtasmyrsla og markaðssetningu íslenskrar fatahönnunar erlendis en í þessum iðngreinum hafa konur verið í fararbroddi.

7.8. Þátttaka iðnaðar- og viðskiptaráðuneytis í samvinnuverkefnum.
    a. Atvinnuuppbygging á landsbyggðinni.
    Iðnaðar- og viðskiptaráðuneyti mun ásamt félagsmálaráðuneyti, forsætisráðuneyti (Byggðastofnun) og fjármálaráðuneyti kanna hvernig styrkir úr opinberum sjóðum sem nýtast eiga atvinnuuppbyggingu á landsbyggðinni hafa skipst á milli kvenna og karla.
    b. Lánatryggingasjóður kvenna.
    Lánatryggingasjóður kvenna er samvinnuverkefni iðnaðar- og viðskiptaráðuneytis, félagsmálaráðuneytis og Reykjavíkurborgar. Tilgangur með stofnun sjóðsins er að styðja konur til þátttöku og nýsköpunar í atvinnulífi með því að veita ábyrgðir á lánum sem veitt eru umsækjendum um lánatryggingu úr Lánatryggingasjóði kvenna.

7.9.     Jafnréttisnefnd ráðuneytisins og stofnana þess.
    Kanna skal stöðu jafnréttismála í ráðuneytinu og stofnunum þess og gera áætlun um hvernig rétta skuli hlut kynjanna. Verði það m.a. gert með markvissri fræðslu yfirmanna og annarra starfsmanna.

8.     Landbúnaðarráðuneyti.
8.1.     Félagsleg og efnahagsleg réttindi kvenna í bændastétt.
    Könnuð verða ýmis ákvæði um eignaraðild í landbúnaði og búrekstri og réttindi og skyldur henni samfara. Gerðar verði tillögur til úrbóta þar sem þess gerist þörf með það að markmiði að jafna hlut kvenna og karla. Þessu verkefni verði lokið fyrir árið 2000.

8.2.     Fræðsla fyrir konur og karla í bændastétt.
    Unnið verður upplýsinga- og fræðsluefni um réttindi og skyldur kvenna og karla í bændastétt. Þar verður gerð grein fyrir félagskerfi landbúnaðarins, starfi hagsmunasamtaka bænda og félagslegum réttindum sem varða konur og karla í bændastétt, ásamt upplýsingum um jafnrétti kvenna og karla almennt.

8.3.     Atvinnumál kvenna á landsbyggðinni.
    Landbúnaðarráðuneytið mun beita sér fyrir því að fullt tillit verði tekið til stöðu kvenna sem búa í dreifbýli og kvenna í bændastétt í öllum þeim sértæku verkefnum sem unnin verða samkvæmt þessari framkvæmdaáætlun og varða stöðu kvenna á vinnumarkaðinum og möguleika þeirra til eigin atvinnurekstrar og endurmenntunar.

8.4.     Fjölgun kvenna í stjórnum og ráðum sem varða landbúnaðarmál.
    Sérstakt átak verður gert til að fjölga konum í stjórnum, nefndum og ráðum þar sem stefnumótun varðandi framtíð landbúnaðarins á sér stað og ákvarðanir eru teknar. Þetta átak tekur til bæði opinberra nefnda og ráða á vegum ríkisvaldsins og félags- og hagmunasamtaka bændastéttarinnar.

8.5.     Jafnréttisnefnd ráðuneytisins og stofnana þess.
    Kanna skal stöðu jafnréttismála í ráðuneytinu og stofnunum þess og gera áætlun um hvernig rétta skuli hlut kynjanna. Verði það m.a. gert með markvissri fræðslu yfirmanna og annarra starfsmanna.

9.     Menntamálaráðuneyti.
    Jafnrétti kynjanna í skólakerfinu er sjálfsagt réttlætismál og í anda gildandi laga um jafnan rétt karla og kvenna. Með því að tryggja jafnrétti í skólastarfi er stuðlað að því að hver einstaklingur nýti hæfileika sína og krafta sem best, óháð kynferði. Þannig nýtist þjóðfélaginu best sá mannauður sem það á.
    Niðurstöður samræmdra prófa og staðlaðra kunnáttuprófa, svo og niðurstöður rannsókna sem unnar hafa verið á undanförnum árum, hafa leitt í ljós umtalsverðan kynjamun. Þannig er námsárangur pilta yfirleitt verri en stúlkna auk þess sem þeir eru líklegri en stúlkur til að detta út úr námi og lenda í ýmsum erfiðleikum í skóla. Jafnframt eru meiri líkur á að þeir fremji afbrot og neyti ólöglegra vímuefna. Á hinn bóginn kemur fram að sjálfsmat stúlkna er yfirleitt lægra en pilta þrátt fyrir betri námsárangur.
    Menntamálaráðuneytið leggur áherslu á að skólar búi bæði kynin jafnt undir þátttöku í atvinnulífi, fjölskyldulífi og í samfélaginu almennt, fræði bæði drengi og stúlkur um stöðu kynjanna og mannréttindi og vinni gegn misrétti. Brýnt er að huga að stöðu beggja kynja í skólakerfinu.

9.1.     Námskrárgerð.
    Í nýjum aðalnámskrám grunn- og framhaldsskóla verður sérstaklega tekið mið af lögum um grunnskóla og stefnu menntamálaráðuneytis í jafnréttismálum en þar er kveðið á um að nemendum sé ekki mismunað eftir kyni, búsetu, stétt, uppruna, trú eða fötlun. Þetta þýðir að allir skuli fá sem jöfnust tækifæri til menntunar. Þetta þýðir ekki endilega sömu úrræði fyrir alla, heldur sambærileg og jafngild tækifæri.

9.2.     Vinna að jafnrétti og gegn hefðbundinni verkaskiptingu.
    Menntamálaráðuneytið mun áfram leggja áherslu á að skólar vinni ötullega að því að tryggja jafnan rétt drengja og stúlkna, fræða nemendur um stöðu kynjanna og vinna gegn því að nemendur festist í farvegi hefðbundinnar verkaskiptingar kynjanna. Mikilvægt er að menntakerfið ýti ekki undir launamun kynjanna, til dæmis með því að hvetja konur sérstaklega til að stunda ákveðið nám en karla til að stunda annars konar nám.

9.3.     Jafnréttiskennsla í skólum verði efld.
    Jafnréttisfræðsla í skólum verði efld og lögð verði sérstök áhersla á styrkleika beggja kynja, skyldur beggja og réttindi. Sérstök áhersla verði lögð á fjölskyldufræðslu og náms- og starfsfræðslu bæði í grunn- og framhaldsskólum. Nauðsynleg forsenda jafnréttiskennslu er að jafnréttisfræðsla standi kennurum og skólastjórnendum til boða.

9.4.     Rannsóknir á stöðu kynjanna í skólakerfinu verði efldar.
    Menntamálaráðuneytið mun láta fara fram rannsókn á stöðu kynjanna í skólakerfinu þar sem sérstaklega verður hugað að líðan hvors kyns fyrir sig í skólum. Á grundvelli slíkra athugana verði kannað hvort tímabundin aðgreining kynjanna í námi í ákveðnum greinum eða þáttum tryggi betri námsárangur og líðan bæði stúlkna og drengja.

9.5.     Íþróttauppeldi stúlkna verði eflt.
    Brottfall stúlkna úr íþróttum er mikið. Í ljósi þess mun menntamálaráðuneytið stuðla að því að íþróttauppeldi stúlkna verði sinnt í skólakerfinu ekki síður en drengja.

9.6.     Tölvur og upplýsingatækni.
    Menntamálaráðuneytið mun leggja aukna áhersla á að bæði kyn menntist um tölvur og upplýsingatækni. Sú fræðsla þarf að hefjast strax á yngri stigum grunnskólans til að draga úr þeim kynjamun sem þegar er orðinn umtalsverður í efri bekkjum grunnskóla.

9.7.     Stærðfræði og raungreinar.
    Menntamálaráðuneytið mun leita leiða til að auka áhuga stúlkna á þessum sviðum þegar í yngri bekkjum grunnskóla. Kannað verður hvort stúlkur þurfi sérkennslu á þessum sviðum.

9.8.     Styrkir til jafnréttisfræðslu.
    Við úthlutun styrkja úr Þróunarsjóði grunnskóla á skólaárinu 1998–1999 mun menntamálaráðuneytið leggja sérstaka áherslu á þróunarverkefni sem tengjast jafnréttisfræðslu og aðgerðum til að bæta stöðu drengja og stúlkna í skólunum.

9.9.     Nefndir og ráð.
    Þegar skipað er í ráð og nefndir á vegum menntamálaráðuneytisins mun sérstaklega verða tekið mið af jafnréttissjónarmiðum og kallað til fólk af báðum kynjum eftir því sem kostur er.

9.10.     Kvennasögusafnið.
    Framlag til Landsbókasafns Íslands – Háskólabókasafns verður hækkað um 2,1 milljón króna árið 1998 vegna reksturs Kvennasögusafns.

9.11.     Konur og fjölmiðlar — ímyndir kvenna og karla.
    Menntamálaráðuneytið mun beita sér fyrir athugun á aðgengi kvenna að fjölmiðlum og þá um leið þátttöku þeirra í ákvörðunum varðandi þróun þessara miðla. Einnig verði kannað hvaða kven- og karlímyndir íslenskir fjölmiðlar birta og hvernig megi vinna markvisst að því að umfjöllun fjölmiðla um líf og starf kvenna sýni þær í öllum sínum fjölbreytileika. Á grundvelli slíkra athugana verði unnið að stefnumótun á þessu sviði.

9.12.     Fræðsla um greiningu á afleiðingum ofbeldis.
    Menntamálaráðuneytið mun beita sér fyrir því að í grunnnámi og við endurmenntun kennara, starfsfólks heilbrigðis- og félagsþjónustu, presta, lögreglu og annarra sem líklegir eru til þess að umgangast þolendur ofbeldis verði tryggð fræðsla um hvernig bregðast skuli við og aðstoða þá sem fyrir ofbeldinu hafa orðið.

9.13.     Jafnréttisnefnd ráðuneytisins og stofnana þess.
    Kanna skal stöðu jafnréttismála í ráðuneytinu og stofnunum þess og gera áætlun um hvernig rétta skuli hlut kynjanna. Verði það m.a. gert með markvissri fræðslu yfirmanna og annarra starfsmanna.

10.     Samgönguráðuneyti.
10.1.     Konur sem atvinnurekendur í ferðaþjónustu.
    Framlag kvenna til ferðaþjónustu verður metið í ljósi þess að ferðaþjónustan skiptir sífellt meira máli fyrir bæði atvinnustig í landinu og tekjur almennt. Markmið þessarar úttektar verður að kanna hvernig konur og karlar koma að þessari vaxandi atvinnugrein og að þá verði hægt að meta hvort og þá hvernig breytingar eða sérstakar stuðningsaðgerðir gagnist konum sem körlum.

10.2.     Átak til að auka hlut kvenna í nefndum og ráðum á vegum ráðuneytisins.
    Þegar skipað er í ráð og nefndir á vegum ráðuneytisins skal taka mið af jafnréttissjónarmiðum og kalla til fólk af báðum kynjum eftir því sem kostur er.

10.3.     Jafnréttisnefnd ráðuneytisins og stofnana þess.
    Kanna skal stöðu jafnréttismála í ráðuneytinu og stofnunum þess og gera áætlun um hvernig rétta skuli hlut kynjanna. Verði það m.a. gert með markvissri fræðslu yfirmanna og annarra starfsmanna.

11.     Sjávarútvegsráðuneyti.
11.1.     Konur í fiskvinnslu.
    Skipuð verður nefnd til að safna upplýsingum um stöðu fiskvinnslunnar að því er varðar atvinnumöguleika kvenna og áhrif nýrrar tækni á atvinnugreinina og þá atvinnumöguleika. Nefndinni verður falið að afla upplýsinga um menntun þeirra kvenna sem þar starfa, félagslega stöðu þeirra o.fl. þannig að hægt sé að meta möguleika þeirra til starfsþjálfunar og endurmenntunar.

11.2.     Konur og atvinnurekstur í sjávarútvegi.
    Kannað verður hvort og þá á hvaða sviðum sjávarútvegs konur hafa haslað sér völl sem sjálfstæðir atvinnurekendur. Aðgengi kvenna að fyrirgreiðslu í formi styrkja eða lána verði sérstaklega kannað. Leiði könnunin í ljós sérstök sóknarfæri fyrir konur í þessum atvinnurekstri verða þau styrkt sérstaklega. Á sama hátt verður gripið til sértækra aðgerða ef könnunin leiðir í ljós mismunun sem skýra má með kynferði.

11.3.     Sérstaða sjómanna og fjölskylduaðstæður.
    Könnuð verða áhrif langvarandi fjarvista og einangrunar á fjölskyldulíf sjómanna.

11.4.     Átak til að auka hlut kvenna í nefndum og ráðum á vegum ráðuneytisins.
    Þegar skipað er í ráð og nefndir á vegum ráðuneytisins skal taka mið af jafnréttissjónarmiðum og kalla til fólk af báðum kynjum eftir því sem kostur er.

11.5.     Jafnréttisnefnd ráðuneytisins og stofnana þess.
    Kanna skal stöðu jafnréttismála í ráðuneytinu og stofnunum þess og gera áætlun um hvernig rétta skuli hlut kynjanna. Verði það m.a. gert með markvissri fræðslu yfirmanna og annarra starfsmanna.

12.     Umhverfisráðuneyti.
12.1.     Jafnréttisnefnd umhverfisráðuneytisins og stofnana þess.
    Umhverfisráðuneytið mun skipa nefnd um jafnréttismál með fulltrúum stofnana ráðuneytisins fyrir árslok 1997. Hlutverk nefndarinnar verður að
          sjá til þess að gerðar verði starfsmannaáætlanir fyrir stofnanir ráðuneytisins sem miða að því að jafna stöðu kvenna og karla,
          að halda uppi umræðum og fræðslu um jafnréttismál,
          að safna upplýsingum um stöðu jafnréttismála í stofnunum,
          að koma á framfæri hugmyndum sem stuðla að auknu jafnrétti.

12.2.     Fjölgun kvenna í stjórnum, nefndum og ráðum sem varða umhverfismál.
    Sérstakt átak verður gert til að fjölga konum í stjórnum, nefndum og ráðum þar sem stefnumótun varðandi framtíð umhverfismála á sér stað og ákvarðanir eru teknar.

13.     Utanríkisráðuneyti.
13.1.     Aðgerðaáætlun.
    Á fyrstu tveimur árum framkvæmdaáætlunarinnar mun starfa samráðsnefnd sem í eiga sæti fulltrúar utanríkisráðuneytis og félagsmálaráðuneytis. Verkefni nefndarinnar verður að vinna tillögur til ráðherra um sérstaka vinnu- og aðgerðaáætlun um samþættingu jafnréttis kvenna og karla í alþjóðastarfi. Í áætluninni mun koma fram hvernig utanríkisráðherra fyrir hönd íslenskra stjórnvalda geti, betur en nú er, unnið að framgangi réttindamála kvenna og barna samkvæmt alþjóðasamþykktum sem Ísland er aðili að.

13.2.     Konur og karlar í störfum hjá alþjóðastofnunum.
    Settar verða vinnureglur sem kveði á um sem jafnastan hlut kvenna og karla í stöðum hjá alþjóðlegum stofnunum. Þetta ákvæði á ekki einungis við um ráðningu Íslendinga heldur einnig alla þá sem Íslendingar kjósa að styðja í stöður á vegum alþjóðasamtaka.

13.3.     Mannréttindabrot gegn konum og stúlkum.
    Utanríkisráðherra mun beita sér fyrir því að alþjóðastofnanir eins og Sameinuðu þjóðirnar og Evrópuráðið taki sérstaklega til athugunar — þegar verið er að kanna hvort um brot á mannréttindum er að ræða — brot sem beinast sérstaklega gegn konum.

13.4.     Átak til að auka hlut kvenna í nefndum og ráðum á vegum ráðuneytisins.
    Þegar skipað er í ráð og nefndir á vegum ráðuneytisins skal taka mið af jafnréttissjónarmiðum og kalla til fólk af báðum kynjum eftir því sem kostur er.

13.5.     Jafnréttisnefnd ráðuneytisins og stofnana þess.
    Kanna skal stöðu jafnréttismála í ráðuneytinu og stofnunum þess og gera áætlun um hvernig rétta skuli hlut kynjanna. Verði það m.a. gert með markvissri fræðslu yfirmanna og annarra starfsmanna.

13.6.     Jafnréttisnámskeið.
    Ráðuneytið mun standa fyrir jafnréttisnámskeiðum fyrir starfsmenn sem fara til starfa í þróunarlöndum eða vinna að slíkum verkefnum.

Samþykkt á Alþingi 28. maí 1998.